Þar feilaði Hæstarétti

Brynjar Níelsson alþingismaður og lögmaður lýsti því yfir að varlega þyrfti að fara í nálgunarbann vegna þess að í því væri fólgin refsing. Þessu er ég honum ósammála. Nálgunarbann er ekki refsing heldur er dómur um réttindi tveggja einstaklinga.

Refsingar á Íslandi er ákveðnar af hinu opinbera. Tilgangur er að halda uppi lögum og reglum. Þær eru ekki hefnd heldur eiga að hafa að markmiði að fæla menn frá brotum.

Þess vegna er aðal atriðið að sá ákærði hafi örugglega framið brotið. Það væri lítill fælingarmáttur í því ef alsaklaust fólk ætti líka á hættu að vera dæmt. Aðrar reglur gilda um sönnun þegar dómstólar verða að dæma um réttindi manna innbyrðis. Stundum þarf að dæma um fjárkröfur sem skaða ekkert síður en refsing. Dómstóll verður að skera úr um hver á réttindin eftir þeim sönnunargögnum sem til eru og er þá eðli máls samkvæmt ekki hægt að gera sömu sönnunarkröfur og í refsimálum.

Nálgunarbann er í eðli sínu miklu líkara einkamáli að því leiti að fjallað er um rétt tveggja einstaklinga til frelsis. Þó ríkið gangi í málið er það ekki á sama sjónarmiði og í refsimálum. Ekki er tilgangur bannsins að hafa almenn varnaðaráhrif heldur að hindra að einn einstaklingur geti skert persónufrelsi annars einstaklings. Verið er að skera úr um rétt tveggja einstaklinga. Kemur þetta sjónarmið fram í greinargerð. Þykir halla of mikið á annan aðilann og þess vegna tekur ríkið að sér þetta hlutverk.

Ekki er samt sjálfsagt að dæma menn í nálgunarbann í öllum tilvikum þó mín skoðun sé sú að takmörkun sem sá sem dæmdur er í bannið verður fyrir sé mjög lítil miðað við þá skerðingu sem þolandi verður fyrir.  Við túlkun á lagaákvæðinu er eðlilegt að mínum dómi að taka tilliti til þess.

Skoðum í þessu sambandi dóm Hæstaréttar nr. 62/2015 og lagaákvæðið sem dæmt var eftir:

Í stuttu máli vor atvik þessi.

Sagt er í dómnum að grunur leiki á líkamlegu ofbeldi í eitt skipti.  Þá er talið viðurkennt að um mjög gróft andlegt ofbeldi hafi verið að ræða með því að dreifa nektarmyndum af þolanda á sérstaklega niðurlægjandi hátt. (sent vinkonu og vinnufélögum.

 

Lagaákvæðið er svohljóðandi:

 Heimilt er að beita nálgunarbanni ef: 
   a. rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola, eða
   b. hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola skv. a-lið.

 

Mikilvægt er að orðið „eða“ er milli liða. Samkvæmt því gerir lagaákvæðið ekki ráð fyrir því að bæði skilyrðin séu til staðar. Ekki er heldur skilyrði samkvæmt orðalagi ákvæðisins að sekt sé sönnuð heldur að um rökstuddan grun sé að ræða.

 

Það að ákvæðið taki fram að nægjanlegt sé að um rökstuddan grun sé að ræða sýnir það sjónarmið sem ég hef bent á hér á undan að um sönnun gildi minni kröfur en í refsimáli enda styðja eðlisrök þá ályktun. Þá var ákvæðið flutt úr lögum um meðferð opinberra mála í sérlög og styður það einnig þessa ályktun mína.

 

Í niðurstöðu dómsins segir:  „Jafnvel þótt varnaraðili hafi með háttsemi sinni í hinu síðarnefnda tilviki gróflega rofið friðhelgi einkalífs A verður ekki talið að nálgunarbann á grundvelli laga nr. 85/2011 veiti henni vernd gagnvart slíkri háttsemi. Þá er nokkur tími liðinn frá því atvik 30. júlí 2014 áttu sér stað. Er ekkert í gögnum málsins málsins sem bendir til að varnaraðili hafi eftir það tímamark beitt A líkamlegu ofbeldi eða að hætta sé á að hann muni brjóta gegn henni með þeim hætti. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki ráðið að fullnægt sé skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni og verður það því fellt úr gildi.“

 

Samkvæmt þessu eru rök Hæstaréttar þessi:  

  1. Nálgunarbann veiti ekki vernd gegn þeirri háttsemi að birta nektarmyndir af brotaþola.
  2. Langt er um liðið frá atburði og hefur umræddur maður ekki ógnað konunni um nokkurt skeið (um 6 mánuði) og telur Hæstiréttur að ekkert bendi til að hann geri slíkt aftur. Á þessu sjáum við hvað betrun ofbeldismanna tekur stuttan tíma að mati Hæstaréttar.

Ég sé ekkert í ákvæðinu sjálfu eða meðferð málsins í þinginu sem leyfi þessa túlkun. Orðið eða skil ég þannig að ekki sé skilyrði fyrir nálgunarbanni að sönnuð sé hætta á því að brotið sé á þeim aftur sem njóta á verndarinnar. Samt rökstyður Hæstiréttur niðurstöðu sína með því að sú hætta sé ekki til staðar.

Hæstiréttur tekur ekki tillit til þess að nærri óbærilegt geti verið fyrir konuna að vera í návist þess  mans sem hefur niðurlægt hana svona herfilega. Það er eðli andlegs ofbeldis umfram líkamlegt ofbeldi að beiting þess er ekki eins sýnileg. Þó það sé rétt hjá Hæstarétti að nálgunarbann komi ekki í veg fyrir frekari dreifingu nektarmynda þá getur það komið í veg fyrir minna sýnlegt andlegt ofbeldi.  Sú ályktun Hæstaréttar um að þeir fáu mánuðir sem liðnir eru sýni ótvírætt að maðurinn sé ekki líklegur til frekari ofbeldis finnst mér hæpin. Í því sambandi mætti líta til sönnunarkröfu í A lið ákvæðisins. Mér finnst þessi niðurstaða Hæstaréttar stangast á við hana.

Í þessu máli var viðurkennt mjög gróft brot á ærumeiðingar- og friðhelgiskafla hegningarlaga. Þannig var fullnægt A lið 4. gr. Laga nr. 85/2011 og þolandi ofbeldisins hafði hag af því að þurfa ekki að vera í návist ofbeldis­mannsins meðan hún var að ná sér andlega eftir ofbeldið. Hæstarétti fannst of mikil takmörkun á frelsi ofbeldismannsins að halda sér í 50 m fjarlægð frá viðkomandi og elta hana ekki. Þrátt fyrir lagabreytingu er réttur ofbeldismanna meiri en fórnarlamba.

Ég hef verið lögreglumaður og þurft að glíma við heimilisofbeldi í starfi. Lögin voru sett vegna samúðar með fórnarlömbum ofbeldis. Þau voru sett vegna þess að réttur ofbeldismanna var virtur meir en réttur fórnarlamda. Réttur ofbeldismananna var svo mikil að almenningi ofbeið og þingið brást við með þessum lögum.

Í lýðræðisríki er það vilji fólksins sem ræður. Til þess kýs það sér fulltrúa á Alþingi til að fara með völdin. Það er skylda dómstóla að dæma í samræmi við þann vilja eftir lögskýringarreglum. Það er tekið fram í greinargerð með frumvarpi til laga sem um ræðir að það sé gert vegna umræðu í þjóðfélaginu. Markmið laganna er að breyta þeim réttarhalla sem er milli ofbeldismanna og þolenda sem oftast eru konur og börn. (Það voru þrír karlmenn sem kváðu upp dóminn.)

Friðhelgi einkalífsins er varin í stjórnarskrá. Hæstarétti ber að virða það jafnvel þó lög kveði á um annað. Í þessu tilfelli er það ekki um friðhelgi einkalífs einnar persónu að ræða heldur tveggja. Ákvæði stjórnarskrár getur ekki verndað rétt ofbeldismanns á kostnað fórnarlambs.

Ég tel að Hæstiréttur hafi túlkað ákvæðið um nálgunarbann mjög frjálslega og ekki í samræmi við vilja löggjafans og ekki síst almennings. Ef Hæstiréttur tekur sér það vald þýðir ekki að breyta lögunum.


mbl.is Niðurstaða Hæstaréttar vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað leggur þú á þig til að ná góðri mynd?

Ég sá einhversstaðar á netinu lista yfir mismunandi stig af áhuga á ljósmyndun. Stigin eru þessi (meiri áhugi eftir því sem neðar dregur):

1.       Tekur mynd á göngu án þess að stoppa.

2.       Stoppar til að taka mynd.

3.       Rúllar niður bílrúðunni til að taka mynd.

4.       Stoppar í 15 sek. til að velja sjónarhornið.

5.       Á myndavél sem ekki er hluti af öðru apparati.

6.       Á, tekur með sér og notar þrífót.

7.       Vaknar árla morguns til að taka myndir.

8.       Fer í ferðir eingöngu til að taka myndir.

9.       Fer í viku ljósmyndaferð.

10.   Flýgur langar vegalengdir eingöngu til að ná góðri mynd.

 

Hvað er áhugastig þitt.  


Hvað má í ljósmyndun?


Það hafa alltaf verið til menn sem þykjast ráða reglum í myndlist. Þegar myndavélin kom fram voru ljósmyndir langt frá því að vera list og nú seljast verk frumkvöðlanna á svipuðu verði og málverk frá sama tíma. Listasöfn hamast við að dásama þessa frumkvöðla og þykja sæl ef þau ná að sýna verk þeirra. 
 
Ljósmyndun er ekkert eitt. Eina sem ljósmyndir hafa sameiginlegt er að þær koma frá einhvers konar vél sem er með tæki til að fanga ljós og varðveita það.
 
Fyrir daga ljósmyndunar var til tæki sem varpaði mynd af umhverfinu á glerplötu. Menn drógu eftir þeirr mynd upp afrit  sem þeir notuð síðan sem uppistöðu í málverki. 
 
Með þróun efnafræði náðu men að setja á glerplötu silfursambönd sem breyttust í ljósi og þannig fönguðu þeir myndina. Það þurfti að stöðva efnabreytinguna í myrkraklefa og varpa henni á pappír með svipuðum eiginleikum áður en hægt var að sýna hana í dagsbirtu. 
 
 
Hver ljósmynd var sjálfstætt verk sem krafðist mikils hugvits og verkþekkingar. Fyrst var takan sjálf. Velja þurfti rétta birtu og stillingar á myndavélinni við hæfi. Þessir þættir hafa ekki yfirgefið ljósmyndunina þrátt fyrir aukna tækni. Þá var gerð eftirmyndar líka hugverk. Velja þurfti áferð á pappír, lit og einnig voru pappírar mis mjúkir þ.e. tóku misjafnlega við ljósi og skugga og framkölluðu misjafnlega miklar andstæður. Við afritun mátti afmarka myndina öðru vísi það er kroppa af jöðrum hennar til að stækka upp hluta hennar. Þá var myndinni ekki varpað beint á pappírinn heldur voru misjafnir hlutar hennar lýstir misjafnlega mikið og þannig dregin fram þau atriði sem skiptu máli. Þess var gætt að skuggarnir yrðu ekki oflýstir og misstu alla áferð og eins með háljósin. Þess var gætt að þau yrðu ekki vanlýst. Gerð afritisins var því tímafrek vinna sem krafðist smekkvísi og sköpunar. 
 
Nú er það sem áður var gert í myrkraklefa unnið í tölvu. Möguleikarnir hafa aukist en í grunninn er um sömu atriði að ræða.   
 

Nú er þessi barátta við listaleysið hafin að nýju kannski með nýjum formerkjum. Margir virðast vita hvað má og hvað ekki í stafrænni ljósmyndun. Við erum að vissu leiti á byrjunarreit. Eins og áður sagði þá eru þær myndir sem ljósmyndarar og framsæknir ástriðuljósmyndarar tóku hér áður fyrir alls ekki eins og þær komu beint úr myndavélinni. Nú bregður svo við að væluhópurinn telur slíkar breytingar í stafrænu umhverfi óheimilar samkvæmt einhverju valdi sem þeir telja sig hafa yfir samborgurunum.  
 
Það er eðlilegt að fréttamiðlar skrumskæli ekki sannleikann hvorki í texta eða mynd. Í báðum tilfellum verður þó sá sem skráir að velja sjónarhorn sem getur haft áhrif á skynjunina. Eins má staldra við vegna þeirrar myndar sem ungar stúlkur fá um "fallegar konur" í tískublöðum. 
 

Ég er aðeins að tala um þær myndir sem menn taka og birta til að sýna verk sín á þessu sviði hvort sem það eru atvinnu listamenn, ástríðu ljósmyndarar eða aðrir og hafa ekki sjálfu sér nein skilaboð sem eiga að komast óbrengluð til skila. Hvorki þú eða aðri lesandi góður eiga að stjórna hvert sköpun þeirra leiðir þá en þú getur haft skoðun á því hvernig þér líkar. Listafræðingar framtíðarinnar skera svo úr um varðveislugildi verkanna. 
 
 
 
 
 
 

Kropp faktor


 
Eins og ég hef sagt ykkur þá er aðdráttur linsu tilgreindur í millimetrum. Þó hægt sé að beita ákveðnum aðferðum til að komast fram hjá lögmálinu þá er miðað við fjarlægðina frá fyrsta gleri að myndflögu.
 
_MG_2683-as-Smart-Object-1-2-E
 Ef við skoðum meðfylgjandi mynd þá sjáum við að aðdrátturinn ræðst líka af stærð myndflögunnar. Svarti reiturinn sýnir minni myndflögu og heildarmyndin fellur á stærri myndflögu. Ef báðar myndirnar eru stækkaðar upp í sömu stærð virðist eins og meiri aðdráttur hafi verið notaðu á myndina með litlu myndflöguna. 
 Ef við höfum myndavél með minni myndflögu þá er stærðinni á myndflögunni oft lýst sem crop factor. Hlutföllin eru t.d. gefin upp sem 1,6 (algengt á Canon vélum) Ef við eigum 30 mm linsu á slíka vél þá jafngildir það 48 mm á vél með myndflögustærð á við 35 mm filmu. Það telst normal linsa eða linsa sem líkir eftir því sem við sjáum. Fyrir ofan þá stærð eru aðdráttarlinsur en víðlinsur þar fyrir neðan.

 Fókusdýpt ræðst af ljósopi en einnig af aðdrætti linsu. Því meiri aðdráttur þeim mun grynnri er fókusdýptin. Fókusdýptin er hins vega jöfn hvort sem þú tekur heildarmyndina eða tekur hluta hennar og stækkar upp. Myndir úr vélum með smærri myndflögu eru yfirleitt að öðru jöfnu með meiri fókusdýpt.

 

 


Leiðandi línur form og fleira

Oft eru einkenni fallegra mynda form og leiðandi línur. Til að sjá hvað ég meina er gott að googla „photography leading lines“ Ef þú átt erfitt með enskuna getur þú afritað þetta og sett inn í google leit. Veldu image og þá sérðu margar mjög fallegar myndir sem allar byggja á því að línur leiða þig inn í myndefnið eða þær ramma það af.

leadinglinesMarkup

Skoðið hverja mynd vel og leitið eftir línum og spyrjið ykkur hvað þær gera fyrir myndina. Þær myndir sem ég sá með slíkri leit þá voru leiðandi línur mjög áberandi. Þær þurfa ekki að vera það. Þær eiga að snú þannig að þær leiði augað á því mikilvægasta.

Form eru líka mikilvæg í mynduppbyggingu. Hafið þið tekið eftir því að ljósmyndarar láta fjölskylduna gjarnan mynda þríhyrning, model eru oft með höndina á mjöðm þannig að hún myndi þríhyrninga og lappirnar gera það gjarnan líka.

Þið getið googlað "Photography triangle" til að sjá hvernig þríhyrningar hafa verið notaðir í myndlist í aldir.  

Önnur form svo sem hringir og ferhyrningar geta líka verið til að auka myndgæðin.

Ég hef talað um speglun og samhverfur. Þá er önnur hliðin spegilmynd hinnar. Oft er skemmtilegt í samhverfumyndum að eitthvað brjóti upp samhverfinu en betra er að hafa slíkt ekki of flókið. Það sem brýtur upp samhverfuna má gjarnan vera á þriðjungalínu þ.e. 2/3 hlutar myndarinnar er öðrum megin við hlutinn/manninn og 1/3 hinum megin. Þetta á sérstaklega við ef samhverfan er miðjusett.

Þið getið séð myndir með samhverfu með því að googla „photography symmetry“

Dýpt getur verið sýnd með leiðandi samsíða línum sem fjarlægjast t.d. vegur. Vegurinn verður þrengri og þrengri. Við vitum samt að hann er allur jafn breiður og þannig skynjum við fjarlægðina. Einnig getur hlutur í forgrunni á móti fjöllum í baksýn skapað dýpt. Ef þið googlið  „photography depth“ þá sjáið þið flott dæmi um dýpt í myndum. Veltið fyrir ykkur hvernig dýptin er sýnd.  

 


Nördagrein fyrir seinustu færslu

Ljósopstærðir með eins stopps millibili, 1/2 stopps og 1/3 stopps millibili. Á gömlu filmuvélunum reiknuðu menn í heilum stoppum en á stafrænum myndavélum eru bilin stundum minni. 

 

Understanding_aperture_f_stop_chart

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eins og þið sjáið á ljósopinu sem er til vinstri á myndinni þá er há tala lítið ljósop sem þýðir lítið ljós.

Hraðarnir eru í heilum stoppum. Þar sem flækjustigið er minna læt ég duga að nefna þá í heilum stoppum.

 

1/30 - 1/60 - 1/125- 1/250 - 1/500 - 1/1000- 1/2000 úr sekúndu. Ath að oft er hraðinn ritaður sem heil1tala og þá er ritað 60 - 125 o.s.fr. en miðað er við brot úr sekúndu samt sem áður. 

Hraðinn 60 sem er þá 1/60 úr sekúndu hleypir inn tvöfallt meira ljósi en 250  o.s.fr. 

þá er það ljósnæmið sem kallað er ISO á alþjóðamáli.

Því hærri sem ISO talan er þvi meira ljósnæmi þ.e þeim mun minna ljós þarf.

 Stoppin eru: 50 - 100 - 200 - 400 - 800 - 1600 - 3200 - 6400 -12800 - 25600 o.s.fr. 

Það er nákvæmlega jafn stórt bil á milli 50 og 100 og milli 12800 og 25600. Í báðum tilfellum er eins stopps munur eða tvöföldun/helmingun í ljósi.  

Ef maður ætlar að breyta hraðanum úr 500 í 1000 þarf maður að auka ljósnæmið um eitt stopp t.d. frá 200 til 400 eða stækka ljósopið úr 11 í 8 (hærri tala þýðir minna ljósop munið þið).  

 

 


Ljósgjafar

 

 

Stundum er birta of lítil í hluta myndar eða á öllu myndefninu og grípa menn þá til auk ljósgjafa. Á smámyndavélum eru innbyggð flöss og eru þau líklega oftast notuð í slíkum tilfellum. Flestir aðrir ljósgjafar eru þó betri.

Innbyggð flöss geta virkað vel til að mýkja skugga á björtum degi. Þá mótar sólin skugga í myndefnið og flassið mýkir þá upp. Við slíkar aðstæður má nota endurvarpa. Hægt er að kaupa endurvarpa sem lítið fer fyrir meðan þeir eru ekki í notkun en þegar þeir eru notaðir margfaldast þeir í stærð. Þá má nota hvítar plötur eða hvíta fleti til að endurvarpa hluta af sólarljósinu inn í skuggana.

Þegar myndir eru teknar með endurvarpa er ekki verra að hafa aðstoðarmann til að stýra honum. Stundum nægir að láta módelið halda slíkum endurvarpa. Til að skoða betur notkun og slíkra hluta er hægt að googla photography reflector og skoða myndirnar sem birtast (image). Síðan er að prófa sig áfram með það sem sýnt er.

Ég sagði að innbyggði flöss væru ekki góður ljósgjafi. Hægt er að bæta þau með því að setja ræmu af sandblástursfilmu fyrir framan þau þannig að filman komi í boga nokkru framar en flassljósið og laust frá því en fest á sitt hvorum endanum. Þá er hægt að nota það til að minnka skugga og kveikja á lausu flassi sem yrði þá aðalflass. Aðalflassið má t.d. mynda 45° horn við línuna milli myndefnis og myndavélar. Hægt er að mýkja birtu frá slíku flassi með ýmsu móti t.d. eru tæki sem líta út eins og regnhlífar en gerðar til að endurvarpa eða mýkja ljós. Flassinu er ýmist beint inn í regnhlífina eða það látið lýsa í gegnum hana.

Ef menn ætla að nota flass sem er laust frá myndavélinni þá er gott að hafa þetta í huga.

Til eru mjög ódýr flöss sem ekki eru stýrð af myndavélinni. Það kostar ákveðna útreikninga að finna hvaða stillingar þarf þegar slík flöss eru notuð.

Gott er að hafa þetta í huga. Tvö flöss sem vinna saman frá sama stað tvöfalda birtumagnið.

Birtumagnið eykst í veldisfalli þegar ljósgjafinn er færður nær. Ef fjarlægð milli myndefnis og ljósgjafa er helmingað fjórfaldast ljósstyrkurinn. Með þetta í huga og prófun á flassinu má reikna út hvað ljósop og ljósnæmi hentar. Ljósop og ljósnæmi reiknast í stoppum eins og ég hef fjallað um. Eitt stopp annað hvort helmingar eða tvöfaldar ljósið.

Ef menn nota regnhlífar þá er uppgefið frá framleiðanda hversu mikil minnkun verður í ljósi við að lýst sé í gegnum hana. Það getur munað 1,5 stopp.

Eins og ég hef sagt er hægt að nota flöss sem kviknar á þegar annað flass logar og einnig er hægt að fá tæki sem kveikir á flössum t.d. tæki sem kallað er pocket wizard. Þá er tæki komið fyrir á flassskó myndavélar og annað er tengt flassinu eða flössunum og kveikja þessi tæki á flassinu eins og það væri á flassskónum. 


Margt smátt gerir eitt stórt.


 
Þar sem allir taka myndir þurfa myndir að skera sig úr fjöldanum til þess að við metum þær góðar. Því meira sem við sjáum af myndum þeim mun meiri kröfur gerum við.
 
Þess vegna kom fram reglan um lágmarks viðbót í gæðum í mörgum þáttum getur gert gæfumuninn.
 
Þeir sem ná lengst í ljósmyndun hafa mikla fullkomnunaráráttu. Þeir líta á hvert smáatriði og bæta það. Fullkomnunin nær til lita, skerpu, myndbyggingar, smáatriða inn í myndinni, lita- og birtuandstæðna, tegund birtu o.s.fr.  
 
Til að ná fullkomnun í litum - litastilla menn tæki sín allt frá myndavélinni að prentaranum. Til að ná hinni fullkomnu skerpu velja menn bestu linsur, stóra myndflögur, með miklum fjölda pixla og jafnvel án móðufilters.
 
Hversu fullkominn sem þú verður í tækninni þá er endapunkturinn allfaf þitt eigið auga. Ég hef lagt áherslu á að menn þjálfi það. Horfi á smáatriðin í umhverfinu hvort sem þeir eru að taka myndir eða ekki, sjá hvað aðrir gera og læra á sinn eigin smekk. Hvernig litir og andstæður breytast eftir árstíð eða tíma dagsins. Enginn ljósmyndari ætti að láta íslenskar sumarnætur fram hjá sér fara.
 
 

Myndflöguraunir


Myndflaga er eins og ég hef oft sagt hliðrænn ljósmælir. Mæliniðurstöður er síðan breytt í stafrænar upplýsingar. Þetta þýðir að pixlarnir sjá aðeins hve mikið ljós kemur inn en ekki hvaða litur er á ljósinu. 
 
Til að sjá í lit eru filterar sem hleypa aðeins einum þriggja grunnlita í gegn. Hver pixill sér því aðeins einn lit. Síðan er liturinn fundinn út með því að blanda saman litum aðliggjandi punkta. Flestir pixlarnir sjá græna litinn. Af einhverjum ástæðum þykir það gefa besta raun.  Gallinn við þetta kerfi er að falst mynstur getur myndast í fleti með þéttum röndum. Til að minnka þessi áhrif þá er móðu filter notaður kallaður anti alias filter á ensku. Sá filter hliðrar til pixlunum þannig að myndin verður aðeins ógreinilegri en óeðlilegt mynstur minnkar eða hverfur.
 
Dýrustu atvinnumyndavélarnar sem kosta erlendis á aðra milljón  sleppa gjarnan svona móðufílter. Nú er ein af nýju full frame vélunum frá Sony sem er 36 milljón pixla búin að losa sig við slíkan filter. Líklega sjást fleiri þannig vélar í framtíðinni. í stað þess að vélin skili ekki mjög skýrum myndum og síðan sé búin til gerviskerpa í þær eftir á þá verða myndirnar skarpar úr vélinni og svona villu mynstur verður unnið í burtu í eftirvinnslunn. Mér líkar sú þróun.  
 
Þá eru til myndflögur sem filtera ljósið þannig að einn pixill getur skráð marga liti. Sú tækni hefur ekki reynst eins vel eins og lofað var í upphafi en von er á mikilvægum endurbótum á þeirri tækni að sögn framleiðanda.
 

Viltu taka góðar myndir?

Þeir sem verða bestir í ljósmyndun eru þeir sem leggja mjög hart að sér alveg eins og í öllu öðru. Það eru margir sem stefna að því að verða betri en ekki endilega bestir. Ljósmyndun er eitt af því sem þú getur keppt við sjálfan þig í og þarft ekki að keppa við neinn annan. Þá setur þú markmiðin og keppnisreglurnar.

Þú getur keppt að því að læra og þú getur keppt að því að taka betri myndir eða jafnvel hvorutveggja. Eins og ég hef sagt áður eiga menn að skoða verk snillinga og velja það sem manni líkar af verkum þeirra og skilgreina hvað heillar mann við myndirnar. Þetta er eilífðar verkefni því skilningur manns á því hvað er gott eykst með tímanum og skilgreiningarnar verða dýpri.

Gott er að læra grundvallaratriði myndbyggingar svo sem þriðjungaregluna, sem gengur út á það að skipta myndfletinum með tveimur láréttum línum og tveimur lóðréttum og láta myndefnið falla að þessum línum.  Þá eru til reglur um samhverfur og mynstur. Samhverfa er það þegar önnur hliðin speglar hina. Það þarf ekki að vera alveg eins heldur ákveðin samsvörun á milli. Mynstur er það þegar ákveðin atriði eru endurtekin reglulega. Það getur verið góð mynd ef eitthvað brýtur mynstrið upp eins og einn í hópi lítur í myndavélina þegar allir snúa baki í hana t.d. Ég ætla ekki að reyna að kenna þetta en hafið þessi orð í huga þegar þið skoðið myndir. Sumir gera í því að miðjusetja aðalatriði myndar og það er þeirra stíll. Hann getur verið góður ef menn eru samkvæmir sjálfum sér. Það þurfa ekki allir að vera eins.

Það er líka gott að skoða hvaðan birta kemur í myndum. Þegar myndir af fólki eru teknar með ljósum má sjá endurvarp ljóssins í augum viðkomandi og þá getur maður reiknað út hvar ljósið var staðsett og hvernig ljós var um að ræða. Í landslagsmyndum sér maður af skuggunum hvar sólin var. Þá sér maður oft ef notaður hefur verið auka ljósgjafi þegar tekin er mynd af fólki út í náttúrunni. Öll þessi vitneskja hjálpar þér að skilgreina hvað heillar þig við mynd. Þá skiptir máli hverngi hún er unnin. Er hún mikið unnin. Eru litir ýktir og andstæður meiri en búast má við beint úr myndavélinni.

Ekki vera með lærða fordóma frá öðrum hvað má og hvað ekki má. Skoðaðu myndina út frá þínum eigin smekk. Sá smekkkur á eftir að breytast og þroskast. Það er allt í lagi að ganga í gegnum tímabil þar sem þú vinnur myndir í andstöðu við það sem vinum þínum finnst mega ef þér finnst það flott á þeirri stundum.

Í landslagi þykir gott að hafa bæði eitthvað í forgrunni og bakgrunni til að menn fái dýptina á tilfinninguna.

Það er hægt að fá mjög athyglisvert safn ljósmynda með því að googla „best photographers“ og velja images.

Það sem mér finnst einkenna bestu ljósmyndara er fullkomnun. Jafnvel í myndum sem virðast tilviljunartaka þá er ekkert sem á ekki að vera.

Ljósmyndir segja sögu. Sumar myndir standa sjálfstæðar með sína sögu og aðrar standa í seríu. Aðrar myndir eru myndverk eins konar abstrakt lita án þess að segja nokkuð.  

Sterkasta dæmið sem ég þekki um að myndir segi sögu eru myndir RAX frá Grænlandi. 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband