Viltu taka góðar myndir?

Þeir sem verða bestir í ljósmyndun eru þeir sem leggja mjög hart að sér alveg eins og í öllu öðru. Það eru margir sem stefna að því að verða betri en ekki endilega bestir. Ljósmyndun er eitt af því sem þú getur keppt við sjálfan þig í og þarft ekki að keppa við neinn annan. Þá setur þú markmiðin og keppnisreglurnar.

Þú getur keppt að því að læra og þú getur keppt að því að taka betri myndir eða jafnvel hvorutveggja. Eins og ég hef sagt áður eiga menn að skoða verk snillinga og velja það sem manni líkar af verkum þeirra og skilgreina hvað heillar mann við myndirnar. Þetta er eilífðar verkefni því skilningur manns á því hvað er gott eykst með tímanum og skilgreiningarnar verða dýpri.

Gott er að læra grundvallaratriði myndbyggingar svo sem þriðjungaregluna, sem gengur út á það að skipta myndfletinum með tveimur láréttum línum og tveimur lóðréttum og láta myndefnið falla að þessum línum.  Þá eru til reglur um samhverfur og mynstur. Samhverfa er það þegar önnur hliðin speglar hina. Það þarf ekki að vera alveg eins heldur ákveðin samsvörun á milli. Mynstur er það þegar ákveðin atriði eru endurtekin reglulega. Það getur verið góð mynd ef eitthvað brýtur mynstrið upp eins og einn í hópi lítur í myndavélina þegar allir snúa baki í hana t.d. Ég ætla ekki að reyna að kenna þetta en hafið þessi orð í huga þegar þið skoðið myndir. Sumir gera í því að miðjusetja aðalatriði myndar og það er þeirra stíll. Hann getur verið góður ef menn eru samkvæmir sjálfum sér. Það þurfa ekki allir að vera eins.

Það er líka gott að skoða hvaðan birta kemur í myndum. Þegar myndir af fólki eru teknar með ljósum má sjá endurvarp ljóssins í augum viðkomandi og þá getur maður reiknað út hvar ljósið var staðsett og hvernig ljós var um að ræða. Í landslagsmyndum sér maður af skuggunum hvar sólin var. Þá sér maður oft ef notaður hefur verið auka ljósgjafi þegar tekin er mynd af fólki út í náttúrunni. Öll þessi vitneskja hjálpar þér að skilgreina hvað heillar þig við mynd. Þá skiptir máli hverngi hún er unnin. Er hún mikið unnin. Eru litir ýktir og andstæður meiri en búast má við beint úr myndavélinni.

Ekki vera með lærða fordóma frá öðrum hvað má og hvað ekki má. Skoðaðu myndina út frá þínum eigin smekk. Sá smekkkur á eftir að breytast og þroskast. Það er allt í lagi að ganga í gegnum tímabil þar sem þú vinnur myndir í andstöðu við það sem vinum þínum finnst mega ef þér finnst það flott á þeirri stundum.

Í landslagi þykir gott að hafa bæði eitthvað í forgrunni og bakgrunni til að menn fái dýptina á tilfinninguna.

Það er hægt að fá mjög athyglisvert safn ljósmynda með því að googla „best photographers“ og velja images.

Það sem mér finnst einkenna bestu ljósmyndara er fullkomnun. Jafnvel í myndum sem virðast tilviljunartaka þá er ekkert sem á ekki að vera.

Ljósmyndir segja sögu. Sumar myndir standa sjálfstæðar með sína sögu og aðrar standa í seríu. Aðrar myndir eru myndverk eins konar abstrakt lita án þess að segja nokkuð.  

Sterkasta dæmið sem ég þekki um að myndir segi sögu eru myndir RAX frá Grænlandi. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband