Ljósgjafar

 

 

Stundum er birta of lítil í hluta myndar eða á öllu myndefninu og grípa menn þá til auk ljósgjafa. Á smámyndavélum eru innbyggð flöss og eru þau líklega oftast notuð í slíkum tilfellum. Flestir aðrir ljósgjafar eru þó betri.

Innbyggð flöss geta virkað vel til að mýkja skugga á björtum degi. Þá mótar sólin skugga í myndefnið og flassið mýkir þá upp. Við slíkar aðstæður má nota endurvarpa. Hægt er að kaupa endurvarpa sem lítið fer fyrir meðan þeir eru ekki í notkun en þegar þeir eru notaðir margfaldast þeir í stærð. Þá má nota hvítar plötur eða hvíta fleti til að endurvarpa hluta af sólarljósinu inn í skuggana.

Þegar myndir eru teknar með endurvarpa er ekki verra að hafa aðstoðarmann til að stýra honum. Stundum nægir að láta módelið halda slíkum endurvarpa. Til að skoða betur notkun og slíkra hluta er hægt að googla photography reflector og skoða myndirnar sem birtast (image). Síðan er að prófa sig áfram með það sem sýnt er.

Ég sagði að innbyggði flöss væru ekki góður ljósgjafi. Hægt er að bæta þau með því að setja ræmu af sandblástursfilmu fyrir framan þau þannig að filman komi í boga nokkru framar en flassljósið og laust frá því en fest á sitt hvorum endanum. Þá er hægt að nota það til að minnka skugga og kveikja á lausu flassi sem yrði þá aðalflass. Aðalflassið má t.d. mynda 45° horn við línuna milli myndefnis og myndavélar. Hægt er að mýkja birtu frá slíku flassi með ýmsu móti t.d. eru tæki sem líta út eins og regnhlífar en gerðar til að endurvarpa eða mýkja ljós. Flassinu er ýmist beint inn í regnhlífina eða það látið lýsa í gegnum hana.

Ef menn ætla að nota flass sem er laust frá myndavélinni þá er gott að hafa þetta í huga.

Til eru mjög ódýr flöss sem ekki eru stýrð af myndavélinni. Það kostar ákveðna útreikninga að finna hvaða stillingar þarf þegar slík flöss eru notuð.

Gott er að hafa þetta í huga. Tvö flöss sem vinna saman frá sama stað tvöfalda birtumagnið.

Birtumagnið eykst í veldisfalli þegar ljósgjafinn er færður nær. Ef fjarlægð milli myndefnis og ljósgjafa er helmingað fjórfaldast ljósstyrkurinn. Með þetta í huga og prófun á flassinu má reikna út hvað ljósop og ljósnæmi hentar. Ljósop og ljósnæmi reiknast í stoppum eins og ég hef fjallað um. Eitt stopp annað hvort helmingar eða tvöfaldar ljósið.

Ef menn nota regnhlífar þá er uppgefið frá framleiðanda hversu mikil minnkun verður í ljósi við að lýst sé í gegnum hana. Það getur munað 1,5 stopp.

Eins og ég hef sagt er hægt að nota flöss sem kviknar á þegar annað flass logar og einnig er hægt að fá tæki sem kveikir á flössum t.d. tæki sem kallað er pocket wizard. Þá er tæki komið fyrir á flassskó myndavélar og annað er tengt flassinu eða flössunum og kveikja þessi tæki á flassinu eins og það væri á flassskónum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband