Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Hrámyndataka eða Jpeg.

Flestar myndir sem menn fá úr símum eða smámyndavélum eru á formi sem kallast jpeg. Sú myndgerð var til snemma á ferli stafrænna mynda. Hugmyndin var að hafa sameiginlegan staðal ólíkra framleiðanda. Það gékk eftir. 

Jpeg er barns síns tíma. Geymslupláss var lítið og því voru myndirnar minnkaðar og við það rýrðust gæði þeirra. Ef menn síðan gera breytingar á þeim og vista aftur versna gæðin enn frekar.

Í myndavélinni verður til hrámynd. Flestar myndavélar breyta síðan þessum myndum í jpeg mynd. Auk þess að breyta formati mynda þá er myndin unnin þannig að andstæður eru auknar og búin til sýndarskerpa í hana. Við þessa vinnslu fara ákveðnar upplýsingar þannig að ekki má fá fram frummyndina aftur.

Þegar ljósmyndarinn vill síðan vinna myndina frekar hefur hann ekki úr sömu upplýsingum að spila og minni möguleikar á breytingum.

Dýrari myndavélar bjóða upp á að vista myndina á hráformi. Það þýðir að myndavélin eyðir ekki upplýsingum. Hrámyndir eru eins og filma. Þær haldast altaf óbreyttar. Ef maður vinnur hrámynd þá haldast upplýsingar um vinnsluna í gagnagrunni, eru vistaðar í sérstaka skrá eða vistaðar inn í myndinni sjálfri (DNG). Þegar myndin birtist á skjá, er prentuð út eða vistuð undir öðru formati eri þessar upplýsingar  nýttar til að gera myndina og eftir sem áður er frummyndin til staðar.

Svona fyrir nördana. Jpeg mynd er 8 bita en RAW mynd 14 til 16 bita. 8 bita mynd hefur 256 birtu stig í hverjum þriggja frumlita. 14 bita mynd hefur aftur á móti 16384 og 16 bita mynd hefur 65536. Þetta þýðir á mannamáli að það er miklu meira úr að spila í vinnslunni og hægt að ná mun meiru úr ljósi og skuggum. 

 Hafi menn ekki kost á hrámynd er rétt að varðveita frumeintak myndarinnar og búa til afrit sem er unnið frekar. Ef menn nota Lightroom myndvinnsluforritið þá sér það um þetta en ella ætti að geyma frummyndirnar í sérstakri möppu og afrita allar myndirnar yfir í aðra möppu til frekari vinnslu.

Sinn staðallinn af hrámyndum er fyrir hverja myndavélategund og eru skráarendingar eftir því. Myndir úr Canon vélum hafa endinguna Cr2 og nep úr Nikon. Hægt er að færa hrámyndir yfir í almennt form sem kallast DNG. Kostur við það er að hver sem hefur til þess þekkingu getur búið til forrit til að lesa úr myndunum (opin staðall) og pláss er fyrir vinnsluupplýingar inn í myndaskránni. Slíkar upplýsingar fylgja því skránni sé hún afrituð. Hægt er að fá dng umbreytingarforrit á heimasíðu Adobe fyrirtækisins án endurgjalds. 

 


Mikilvægt fyrir byrjanda 2

 

Ofan á flestum smámyndavélum er oft lítið hjól með alls kynns möguleikum sem menn þekkja lítið. Einn kosturinn er Auto og velja flestir hann. Margir vita ekki að önnur stilling sem yfirleitt er merkt P er alveg jafn góð en gefur auk þess nokkra möguleika á þvi að grípa fram fyrir hendur á myndavélinni. Þá eru nokkrir kostir sem stundum er á hjólinu sjálfu eða þá að á hjólinu er einn kostur sem leiðir inn í þá möguleika. 

Ef við tökum Pið fyrst. Ef það er valið er oft möguleiki að yfirlýsa eða undirlýtsa mynd. Myndavélin er óskaplegur bjáni. Hún veit ekkert hvað er aðalatriðið hjá þeim sem tekur myndina. Við skulum taka dæmi að verið sé að taka mynd af persónu fyrir framan bjartan glugga. Myndavélin reynir að sjá það sem er fyrir utan gluggan en andlitið verður allt of dökkt. Hugsanlega reynir hún einhverja málamiðlun þar sem það sem úti er verður of ljóst og andlitið of dökkt. Ef maður velur að yfirlýsa við slíkar aðstæður þá sést andlitið en það sem fyrir utan er hverfur.

 

Þegar mynd er tekin í snjó í mög björtu veðri þá gætu margir ályktað sem svo að myndin verði allt of björt og þess vegna verði að undirlýsa. Þessu er öfugt farið. Myndavél telur að heimurinn eigi að vera grár og stillir sig í samræmi við það. Ef mynd í snjó er ekki yfirlýst verður hún allt of dökk.

 

Þegar myndir eru teknar af einhverju sem er nærri svo sem andlitum í heiðskýru veðri þá verður oft hluti andlitisins allt of bjartur og hlutur þess of dökkur. Skilin verða mjög skýr. Ef P er valið á myndavélinni má nota flass í björtu til að mýkja skuggana. fleiri aðferðir eru til þess að mýkja skugga en gott er að byrja á þessu.

Þið stillið þá á P. Ýtið á hnapp sem merktur er flassi eða veljið það með öðrum hætti. (misjafnt eftir myndavélum) og veljið fullt flass án sjálfvirkni og takið mynd. E.t.v. oflýsir flassið og þá er bara að stilla það niðður. Það er líka misjafnlega gert í ólíkum tegundum  Ef þetta tekst ekki með þessum leiðbeinginum þá er örugglega einhver sem þú þekkir sem getur fiktað sig í gegnum stillingar og sagt þér hvernig á að gera þetta.

 

Hitt sem ég ætla að ræða að margar myndavélar gefa notandanum kost á að segja vélinni hvað myndefnið sé. Stundum er henni sagt að hún eigi að nota gervigreind til þess að finna andlit og leggja áherslu á þau. Þá eru stundum myndir annað hvort beint á stillihjólinu ofan á vélinni eða í undirvalmynd oft merk scene. Ein myndin er ef til vill andlit, önnur fjöll og sú þriðja af hlaupara.

Þá eru fjöldi annarra kosta oft einnig í boði ss kertaljós, snjór o.s.fr. Við skulum taka þessa kosti þ.e. andlit, fjall og hlaupara.

 

Mynd þarf að vera rétt lýst. Það eru þrjár stillingar sem ráða því og getur maður valið á milli þeirra. Ein er tökutíminn þ.e. hve lengi linsan er opin fyrir ljósi. Önnur er ljósopið þ.e. hversu stórt gat ljósið fer í gegnum og það þriðja er ljósnæmið. Ef ljósopið er lítið þá þarf að lengja lýsingartímann eða auka ljósnæmið af því að lítið ljós fer í gegnum lítið gat. Ef ljósopið er lítið þá er fókusinn bæði góður á því sem nálægt er og það sem fjarri er. Þannig vill maður hafa það í landslagsmyndum. Velji maður stillinguna fjall þá leitast vélin við að hafa lítið ljósop. Ef maður velur hins vegar andlit þá velur myndavélin stórt ljósop. Andlitið verður þá í fókus en umhverfið ekki.  Þegar maður velur íþróttamanninn velur vélin annað hvort stórt ljósop eða mikla ljósnæmi eða jafnvel bæði til að hafa tökutímann það studdan að myndin verði ekki hreyfð.

 

Gangi þér vel.

 


Mikilvægast fyrir byrjandann 1,


Flestir taka nú myndir á síman sína eða smámyndavélar. Menn stilla á sjálfstillingu og láta forritarann í útlöndum um að ráða lýsingu myndarinnar. Þetta er ágætt fyrir þá sem sætta sig við þær takmarkanir sem þetta hefur í för með sér. 

 

Ég ætla að sleppa símanum. Þeir eru eins misjafnir eins og þeir eru margir. Myndavélarnar eru það líka en e.t.v. aðeins meiri festa í þeirra stilli möguleikum.

 

Eitt það mikilvægasta í allri myndatöku er það að halda myndavélinni stöðugri. Eftir því sem birtan verður minni því mikilvægara er þetta atriði.

 

Þegar flestir taka myndir þá halda þeir út höndunum og horfa á skjáinn aftan á myndavélinni. Á sumum myndavélum er gamaldags kíkjugat til að miða út myndefnið. Ef það er notað þá heldur maður myndavélinni að líkamanum og hún verður stöðugri. Ef þetta er ekki hægt er möguleik að styðja olnbogunum við líkamann og aðeins nota fremri hluta handleggja til þess að halda myndavélinni frá sér. Við þetta næst þó nokkur stöðugleiki. Þá er hægt að styðja sig við súlu eða annað sem veitir stöðugleika. Gott er að hafa hæfilegt bil á milli fóta. Gott er að æfa sig að ýta á tökuhnappinn. Ákveðin tilhneiging er að ýta vélinni aðeins niður þegar ýtt er á tökuhnappinn. Ég mæli með því að menn æfi sig í því að ýta vélinni jafn mikið upp eins og töku fingurinn ýtir henni niður þ.e. að nota fremur grip um vélina þegar tekið er fremur en að þrýstingurinn sé allur á tökutakkann. Nú er nóg komið í bili. Æfðu þig í að halda myndavélinni stöðugri og myndirnar verða skýrari. Gangi þér vel.  

 


Upplýsingar í histogrami

ins og komið hefur fram er stafræn mynd niðurstaða mælinga á birtu. Milljónir punkta (Pixla) eru á smá flögu aftan við linsuna og sendir hver þeirra niðurstöðu mælinga á þeirri birtu sem fellur á þá meðan myndin er tekin.

gram1fyrir

Þessar niðurstöðu eru tölur á bilinu 0 til 255 eða 256 mismunandi tölur. Það eru sem sagt mögulegt að tákna 256 mismunandi birtustig í venjulegri 8 bita stafrænni mynd. (Tölur eru táknaðar með tveimur táknum í tölvu 0 og 1. 8 bitar eru 8 stafa tala með þessum táknum. Hægt er að raða 0 og 1 á 256 mismunandi vegu í 8 stafa tölu.)

Í skóla þá var kennt að búa til graf. Við fengum dæmi um bekk þar sem ákveðinn fjöldi fékk einkunina 10 og bið bjuggum til súlu sem sýndi þann fjölda. Þá gerðum við súlu fyrir þá sem höfðu 9 og síðan 8 osfr.  Þá drógum við línu á toppa súlnanna og fengum línurit. Þetta er hægt að gera við tölurnar í stafrænni mynd á lágréttu línunni eru tölurnar 0 til 255 og á þeirri lóðréttu er fjöldi af hverri tölu. Ég hef sett hérna á vefinn nokkrar myndir af slíkum gröfum. Grafið sýnir ekki hvar á myndinni talan er frekar en að grafið um einkunnir sýndi hvar nemendurnir sátu í bekknum. Á stafrænni mynd eru milljónir talna og því verða lenda margar mælingar á sömu tölu.

Við köllum þessi gröf histogröm. (histogram á ensku).

Histogram1

Ef við skoðum fyrsta grafið þá eru engar mælingar næst endapunktunum. 255 er hvítt og 0 er svart. Ef vantar þá punkta og þá sem næstir eru þá vantar bæði hvítt og svart í myndina. Það þýðir að minni mismunur er á milli bjartasta og dekksta punktsins en eðliegt er. Oftast skapar þetta flata mynd sem vantar andstæður. (anstæða milli birtu og skugga eru litlar).  Myndin verður ekki falleg.

Í betri myndvinnsluforritum er stilling sem kallast level. Ég ætla ekki að reyna að þýða það vegna þess að öll slík forrit eru á erlendum málum. Level er histogram með þremur stillimöguleikum. Hægt er að færa tvo punkta sem  staðsettir eru í upphafi þannig að annar er lengst til vinstri á histograminu og hinn er lengst til hægri. Ef við færum þessa punkta að þeim stað þar sem fyrstu punktarnir sjást hvoru megin á grafinu Þá segjum við forritinu að þessir punktar eigi að vera annars vegar hvítt og hins vegar svart. Ef við lokum og opnum aftur hefur teygst úr grafinu og nú nær það endapunkta á milli. Bilið milli talna er orðið meira og þannig eru meiri andstæður milli ljóss og skugga. Myndin poppast upp. Ef við veljum sjálfvirkan contrast þá verður niðurstaðan svipuð.

levels1

Ef við færum punktana inn á grafið þá detta þeir punktar út sem eru nær jaðrinum en tilfærður punktur. Þeir punktar sem þannig detta út verða vanlýstir eða oflýstir og birtast í mynd sem kol svartir eða skjanna hvítir þ.e öll smáatriði hverfa út. Andstæðurnar í þeim punktum sem eftir eru verða meiri. Ef myndin er tekin af einstaklingi í hrauni þá kærum við okkur ef til vill ekkert sérstaklega um smáatriðin í holum í hrauninu og færum sleðann þannig að þau hverfa. Þegar við stillum contrastin þannig sjálf þá getum við gert hluti sem sjálfvirknin ræður ekki við.

Í sumum forritum eins og Photoshop Elements (PE) og Photoshop þá er það þannig að ef maður heldur inni alt takka á meðan punkturinn er færður þá birtist svartur skjár í fyrstu. Þegar punkturinn fer inn á grafið þá lýsast upp þeir hlutar sem detta út við færsluna. Þannig getum við séð nákvæmlega hvaða hlutir brenna út. Birtan sem sést er ekki aðeins hvít. Við sjáum líka liti. Það þýðir að þeir litir brenna fyr út en aðrir og því hugsanlegt að einhver smáatriði sjáist eftir sem áður þó litirnir verði eitthvað brenglaðir.

Með myndunum af sumum histogrömum sjást áhrfi breytingana á myndirnar.

Histogram 1 sýnir mynd af sjávarhelli í Heimakletti. Um hrámynd er að ræða. Ef myndin væri jpeg mynd hefði sjálfvirkni myndavélarinnar aukið contrast og fært endapunktana að punktum A og B. jpeg myndir líta oft betur út fyrir vinnslu en hrámyndir en möguleikar í vinnslu hrámynda er svo miklu meiri. Þess vegna verður hrámyndin miklu betri eftir vinnslu.

Histogram2

Histogram 2 sýnir mynd sem er vanlýst. Um er að ræða sólarlagsmynd og er ekki möguleiki að ná bæði smáatriðum í umhverfinu og sólinni að setjast. Ég taldi sólina vera aðalatriðið og lýsti myndina samkvæmt því. Á histograminu sést að megin hluti punktanna er í dekksta hluta grafsins. Þá er eins og vanti á grafið vinstra megin. Það er rétt. Það vantar öll smáatriði í dökka hlutann eins og áður segir. Ef myndin væri oflýst hallaði grafið sér að hægri jaðrinum.

Á mynd sem heitir Levels 1 birtist histogramið með punktunum sem ég hef rætt um. Þeir eru eins og þríhyrningar sinn í hvoru horni og einn í miðjunni. Ég hef aðeins rætt um þá sem eru í jaðrinum. Ef sá sem er í miðjunni er færður að dökka hlutanum þá lýsisist myndin og ef hann er færður í hina áttina dekkist hún. Breytingarnar ná til miðjubirtunnar og hefur lítil áhrif á dekksta og ljósasta hluta myndarinnar.  


Hvað er stafræn mynd.

 

Þegar ljós fellur á hluti þá endurvarpast það til umhverfisins sem mynd af hlutunum sem það fellur á. Þetta endurvarp fellur á auga okkar og skynfrumur aftast í auganu greina þessa mynd og heilinn vinnur svo úr henni og við sjáum.

Það eru tveir eiginleikar sem þetta endurvarpaða ljós hefur sem gerir það að verkum að við greinum umhverfið eins og raun ber vitni. Fyrst og fremst er það mis mikið endurkast sem skapar svart hvíta mynd af umhverfinu. Ljósið hefur líka mismunandi bylgjulengd sem við skynjum sem mismunandi liti.

Í stað sjónhimnu í auganu hefur myndavélin myndflögu. Á myndflögunni eru milljónir jafnvel tug milljónir mælipunkta sem mæla birtu. Mynd umhverfisins fellur á myndflöguna. Dökkir hlutir senda frá sér lítið ljós. Þar sem endurvarp þeirra lendir á myndflögunni mælir hún litla birtu. Hvítir fletir senda frá sér mikla birtu. Þar sem endurvarp þeirra lendir á myndflögunni mælast há birtu gildi. Gráu tónarnir mælast þar á milli.

Þannig verður til svart hvít mynd af umhverfinu.

Eldri tölvur heimiluðu 256 mismunandi gráa tóna sem ná frá alveg hvítu til kolsvarts og er sá fjöldi enn viðmið í lokavinnslu mynda. Það er svokallað 8 bita kerfi.

Hér er talað um svart hvíta mynd eða gráskala mynd. Hvernig fáum við lit í myndina.

Eins og margir vita þá er hægt að setja saman litmynd úr þremur litum annað hvort grænum, bláum og rauðum eða andhverfum litum þeirra. (Mismunandi eftir hvort blandað er ljósi svo sem á skjá eða prentlitum). Á myndflögunni eru ekki allir mælipunktar (pixlar) jafnir. Á hverjum þeirra er ljóssía sem hleypir aðeins að einum þriggja grunnlitanna þ.e. grænum, rauðum eða bláum. Búnar eru til þrjár myndir - ein fyrir hvern framangreindra lita. Þegar litmyndin er gerð breytir tölvan einni myndinni í rauða mynd, annarri í græna mynd og þeirri þriðju í bláa mynd. Þegar þeim er varpað saman á skjáinn sjáum við litmynd. Þegar við prentum út myndina þá breytir tölvan eða prentarinn myndinni í andhverfuliti sem við þekkjum úr bleksprautu prenturum.

Stafræn mynd er því þrjár skrár yfir mæligildi þ.e.a.s. er aðeins tölugildi þeirrar birtu sem féll á hvern pixil.

Eins og áður segir eru 256 mismunandi grátónar frá hrein hvítum til kol svarts. við vinnslu myndar þá er mikilvægt að geta unnið á ákveðnum hluta birtuskalans hvar sem punktana er að finna í myndinni. Ef aðalatriði myndarinnar er í dekksta hluta hennar þá viljum við gjarnan lýsa þá punkta upp án þess að breyta hinum mikið. Það er ekki síst þess vegna sem menn hafa búið til graf yfir punktana svokallað histogram. Þar er punktum raðað óháð staðsetningu en eftir birtu. Öllum ljósustu punktunum er raðaða hægramegin og öllum dekkstu vinstra megin og punktarnir þar á milli eru í miðhluta grafsins. Ég ætla að fjalla um histogram í öðrum pistli.

 

 

 

 


Myndvinnsluforrit 1

Bestu myndvinnsluforritin eru frá sama fyrirtæki og Photoshop. Photoshopið er ekki endilega það besta fyrir áhugaljósmyndara. Ræðst það nokkuð af því hvað menn vilja gera. Ef ætlunin er að breyta myndinni á svipaðan hátt og sjálfvirkni myndavélar gerir en gera það eftir eigin höfði en ekki eftir höfði einhverra forritara í útlöndum þá koma ýmis forrit til greina. Eitt af þeim er ókeypis og heitir Picasa. Ég nefni það af því það er ókeypis og þess vegna eitthvað sem menn þurfa ekki að neita sér um ef þeir eiga tölvu á annað borð. Ef menn vilja nálgast það forrit geta þeir googlað orðið Picasa og þá koma upp slóðir þar sem hægt er að hala því niður. Picasa sýnir smámyndir af öllum myndum sem teknar eru inn. Í Picasa er andlitskanni sem leitast við að þekkja fólk á myndunum og para myndir af sömu einstaklingum saman.

Eins og áður segir eru Adobe forritin best. Ef menn vilja kaupa þau þá er best að hafa samband við Nýherja sem hefur aðstoðað menn í að kaupa þau frá Bretlandi. Ef  menn eiga leið til Bandaríkjanna þá er mjög hagstætt að kaupa forritin þaðan.

Helstu forritin fyrir áhugaljósmyndara eru: Photoshop Elements sem er eins konar litli bróðir Photoshops með mjög marga kosti þess en á viðráðanlegu verði fyrir flesta. Þá nefni ég Lightroom sem er einfalt í notkun en mjög öflugt forrit.

 

Aðal munur á Photoshop Elements og Lightroom er að ekki er hægt að gera miklar breytingar inn í mynd í Lightroom. Þær breytingar sem þar má gera eru aðallega þessar auk breytinga á lýsingu í eintökum hlutum birtuskalans.

 

Hægt er að mála inn á myndina breytingaský og gera breytingar á þeim hluta myndarinnar án þess að þær hafi áhrif á aðra hluta. Þær breytingar sem þar má gera eru margar þær sömu og gera má á heildar myndinni. Þá má draga yfir myndina breytingaflöt sem er þess eðlis að breytingin verður mest í byrjun og dregur svo úr henni þar til hún hverfur alveg. Ef við viljum t.d. dekkja himininn þá drögum yfir efsta hluta myndarinnar slíkan breytingaflöt, stillum inn minni lýsingu og verður himininn þá dekkstur efst en verður ljósari eftir sem neðar dregur.

 

Bæði forritin hafa yfirlit yfir myndir sem teknar hafa verið inn í forritin og smámyndir sem sýna hverja mynd. Þannig geta menn haft heildaryfirlit yfir heimilismyndasöfn svo fremi að þau séu ekki þeim mun stærri.

Photoshop elements (eftirleiðis skammstafað PE) hefur mun meiri möguleika á að breyta mynd svo sem að taka út hluti eða færa til. Ef menn taka hrámyndir þá opnast þær í hliðarforriti við PE sem heitir Camera Raw. Það forrit hefur að mörgu leiti sömu eiginleika og Lightroom en ólíkt í útliti. Einnig er hægt að jpeg myndir í Camera Raw sem fylgir PE. Það er gert með því að fara í File yfirlitið og velja Open As og þar velja Camera Raw.

 

PE hefur mörg viðmót eftir því hversu djúpt menn vilja fara í myndvinnsluna. Eitt viðmótið er fyrir þá sem vita nánast ekkert um myndvinnslu og það seinasta er fyrir þá sem lengst eru komnir í þeim efnum.

 

Mjög auðvelt er að gera myndabækur og myndakort í PE. Þá eru auðveld tól til þess að poppa upp myndir á ýmsan vegu auk venjulegra stillinga svo sem á birtu, kontrast og ljóslit.

 

Í Bandaríkjunum er stundum hægt að fá PE með afslætti í kringum 70 dali. Lightroom kostar yfirleitt rúmlega 100 dali. Þessar tölur breytast og eru aðeins nefndar hér til viðmiðunar. Ekki er hægt að panta Adobe hugbúnað frá íslenskri IP tölu frá Bandaríkjunum og Evrópuverðin eru hærri.

 

Hægt er að panta forrit samkeppnisaðila svo sem ACDsee á netinu.  

 

Þeir sem lengst vilja fara velja gjarnan fullorðið Photoshop og þá velja margir að nota Lightroom með því. (Hvort sem menn velja PE eða Photoshop geta menn valið Lightroom með). Því miður hefur Adobe hætt að uppfæra Photoshop CS. Í stað þess bjóða þeir upp á áskrift og henni fylgir geymsla á gagnaskýi. Fyrir þá sem þurftu ekki að vera alltaf með nýjustu útgáfuna þýðir þetta mun meiri kostnað.

 

Guided skjár.jpgHér má sjá fyrir neðan til hægri skjámynd af PE. Opið er "Guided" glugginn. Þýða má það með leiðbeiningum. Þegar menn velja einhverja af þeim breytingum sem mexpert stikan.jpgá gera á myndinni og birtast hægra megin á skjánum þá fylgja leiðbeiningar (á ensku).

 

Hér til vinstri er síðan stika sem birtist þegar menn velja "Expert" gluggann eða sérfræðinginn.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Vinnsla stafrænna mynda

Photoshopaðar konur í tískublöðum eru til þess fallnar að skapa vanlíðan hjá konum sem aldrei geta náð útliti þessara ofurkvenna. Umræða um þetta hefur kastað rýrð á myndvinnsluforrit eins og Photoshop.

Mynd er alltaf mynd en ekki raunveruleikinn. Það sem myndavél skráir er aldrei það sem við sjáum. Myndavélin hefur ýmsar takmarkanir og einnig þeir miðlar sem koma myndinni fyrir okkar sjónir.

Í fyrsta lagi er mynd yfirleitt tvívídd.

Í öðru lagi er mynd aðeins smá gluggi inn í stærra samhengi. Með því að velja rammann rétt er hægt að gefa mjög villandi mynd af því sem var fyrir framan okkur. Menn eru t.d. hvattir til að beina myndavélinni þannig að ljósastaurar sjáist ekki. Þetta gefur komandi kynslóðum alveg ranga mynd af umhverfi okkar.

Í þriðja lagi vinnur heilinn úr myndinni sem við sjáum og breytir henni án þess að við verðum vör við það. Sjálfvirkni myndavélar reynir að líkja eftir þessu en nær því sjaldan alveg.

Verk ljósmyndarans getur verið margslungið. Fréttamaður hefur það verkefni að skila sem sannastri mynd af myndefninu. Aðrir reyna að skila þeim áhrifum sem myndefnið hafði á þá eða þeim áhrifum sem sá sem er verið að taka myndina af/fyrir vill sjá. Í síðara tilfellinu er  myndvinnsluforrit mikilvægur þáttur.

 

Ljósmyndarar hafa lært ýmsar aðferðir til að líkja betur eftir því sem við sjáum.

 Til að líkja eftir þrívídd í tvívíðri mynd í landslagsmyndum er gjarnan haft eitthvað bæði í forgrunni og bakgrunni. Þannig skynjum við dýpt í myndinni þó ekki sé um þrívídd að ræða.

Eitt af því sem heilinn aðlagar miðað við aðstæður er ljósliturinn. Mismunandi ljós sem við skynjum allt sem hvítt ljós hefur misjafnan lit. Mismunandi perur hafa misjafnan lit og sólin hefur misjafnan lit eftir á hvaða tíma dagsins það er. Heilinn aðlagar okkur svo að breytingum að við finnum fyrst fyrir breytingu á lit sólarljóssins þegar sólin er að setjast eða koma upp.

Myndavélin greinir ljóslitinn og aðlagar myndin eftir því. Þetta er kallað hvítjöfnun og má bæði gera sjálfvirkt og með því að stilla myndavélina eftir fyrirfram gefnum stöðlum eða eftir hvítum fleti í því ljósi sem myndin verður síðan tekin í.

Heilinn skerpir myndina og eykur andstæður milli ljóss og skugga. Þetta reynir sjálfvirkni myndavéla að gera líka.

Þeir sem ætla ná langt í skapandi ljósmyndun hafna sjálfvirkni myndavéla. Ég miða það sem eftir er af þessu bloggi við þá.

Flestar betri myndavélar eru þannig að í stað þess að láta vélina sjá um vinnslu myndarinnar eftir einhverjum meðaltals sjónarmiðum getur maður tekið hana óunna eða hrá út úr myndavélinni og unnið hana í myndvinnsluforritum.

Kostir þess að gera þetta eru þeir að maður velur sjálfur hvaða atriðum er fórnað fyrir meiri andstæður í myndinni og hverju er haldið. Menn geta valið hvar andstæðurnar eru mestar á birtuskalanum eða í hvaða hluta myndarinnar. Í hrámynd eru frá upphafi vinnslunnar mun meiri upplýsingar til að vinna úr. Þannig er hægt að ná atriðum úr hrámynd sem tapast myndu sem oflýst eða vanlýst ef myndavélin sæi um myndina. Meiri upplýsingar þýða líka að meiri möguleikar eru á því að ná kontrast (mismunur í birtu þar sem mikil kontrast þýðir miklar andstæður) í miðjum birtuskalanum án þess að tapa of miklu annars staðar.

 Við vinnslu er myndin einnig pökkuð þ.e. gerð fyrirferðarminni á gagnadiski og við þá pökkun er kastað út upplýsingum.

Ókostir hrámynda eru þeir að þær taka meira pláss og þær þarf að vinna eftir á til þess að þær líti eins vel út og fullunnar myndir úr myndavél.

Hægt er að láta forrit vinna sjálfvirkt á hópi mynda þannig að fyrirhöfnin þarf ekki að vera mikil. Gagnapláss eru alltaf að verða ódýrari og ódýrari og því skiptir stærð mynda mun minna máli en áður.

Hrámyndir eru eins og filmur voru áður fyrir. Þær breytast ekkert jafnvel þó þær séu unnar. Myndir sem unnar eru í myndavél eru yfirleitt á forminu Jpeg (skammstöfun fyrir sameiginlegt átak í stöðlun). þegar Jpeg mynd er breytt eru breytingarnar á sjálfri myndinni. Þegar hrámynd er breytt þá eru breytingarnar settar í sérstaka skrá sem kemur til framkvæmda við birtingu myndarinnar eða flutningi hennar í annað format. þegar myndin er flutt í annað format verða til tvær myndir þ.e. upphaflega hrámyndin sem auðkennd er með endingu sem eru mismunandi eftir myndavélagerðum og nýrri mynd sem hefur t.d. endinguna jpeg. Fleiri form eru til hvert með sína endingu en jpeg er enn það algengasta.

Niðurstaða.

Myndavél sýnir ekki hlutina eins og við skynjum þá. Annað hvort aðlögum við myndina eftir á að því sem við sjáum eða látum sjálfvirkni myndavélar sjá um það. Ef menn gera það sjálfir geta þeir valið hvað er aðalatriði myndarinnar og náð mun meiru út úr myndinni en ella.

Í næstu færslu skulum við skoða myndvinnsluforrit.

 

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband